Þegar vinnuliðið mætti til starfa í byrjun vikunnar mátti sjá á loggi að margir kappar höfðu náð góðum flugum og einhverjum sjálfsagt ansi kalt þegar lentu eftir 6 tíma flug. Þar voru á ferðinni Gylfi Magnússon, Sigmundur Andrésson og fleiri.
Kennslan gekk vel, Kristján Sveinbjörnsson kenndi ásamt því að vinna í pappírsmálum fyrir félagið. Hafsteinn Jónasson kenndi sömuleiðis. Ragnar Eldon Haraldsson var tékkaður út með kennaratékk á þriðjudagskvöldi. Í lokaflugi næsta dag skellti hann sér ásamt Sigurberg upp í 10.000 fet og var þar víðsýnt að sögn Ragnars og sást alla leið niður í Breiðafjörð. Sverrir Þorláksson og Viðar Óskarsson nýttu sama kvöld og náðu 4.400 feta hæð á TF-SAS (Duo Discus). Svona á þetta á vera. Þeir sem ekki flugu þetta kvöld létu sér nægja að horfa á skýjafarið þar sem vindskafin netjuský tóku á sig ný og ný form, t.d. mátti um tíma sjá tvær þykkar og fagurlagaðar pönnukökur með dökkum botnum yfir Vífilfelli.
Spilmaður var Kristinn Pálmason en þeir Helgi Haraldsson og Karl Norðdal leystu hann af. Eitt kvöldið fór slangan af ásamt hlekkjum í stað þess að vírinn slitnaði og á það víst að fara svo. Slönguna fann spilmaður síðan á skeiðinu. Næsta kvöld fóru síðan hlekkirnir í einn hrærigraut og reyndist ágæt gestaþraut að leysa úr.
Helgin var góð, tvö steggjaflug, eitt gæsaflug, afmælisflug og venjulegt himneskt hringsól þar á milli. Nóg að gera, þrátt fyrir aðeins TF-SAC (kennsluvélin) hafi verið til taks á laugardeginum. Gunnar Arthursson aðstoðaði okkur og dró á TF-TOG. Það gerði smá skúr á sunnudeginum og skilaði nokkrum dropum yfir Sandskeið. Þá fór Snæbjörn Erlendsson í loftið með móðu á kanópíunni og þegar hann lenti var enn móða og hlýtur því að teljast kominn með blindflugstékk. Sólveig bakaði hins vegar ómælt magn af vöfflum upp í Harðarskála.
Fallhlífastökkvarar stukku úr TF-VAN, reyndar gleymdist að kalla fyrir stökk til að láta okkur svifflugmenn vita. Fallhlífastökkvari gengur auðvitað fyrir svifflugu. Þetta er ekki til eftirbreytni og gerist vonandi ekki aftur.
Þórir Indriðason tók við loggi alla vikuna og færði inn samdægurs, svo ekki verður annað séð en að margar hendur hafi komið að verki og unnið gott starf. Nýjar loggbækur eru komnar í hús og eru til sölu á 1.500 krónur. Nokkrir nemendur hafa verið duglegir að mæta og lofa allir góðu, sem og hafa eldri félagar mætt og síðan ný andlit. Vonandi hrífst þetta fólk af sviffluginu. Einn nemandi sólaði í vikunni, það var Kristín María Grímsdóttir.
Það viðraði vel þessa vikuna, glampandi sól og allir nýttust dagarnir vel til svifs. Nú er vikan að baki og ekki annað eftir en að minnast á að það eru óskráðar reglur að nemendur sem mæta og fara í flug, þurfa að hjálpa að koma vélum inn í skýli, koma rafhlöðum í hleðslu og ganga frá eftir daginn, undir eftirliti reyndari félaga. Í góðri samvinnu er þetta fljótgert og stuðlar að því að þessi vinna lendi ekki alltaf á sama fólkinu.
Kveðja,
startstjóri.