Skýjað

Kom upp á Sandskeið um daginn. Heima var alskýjað og þó ekki sjáist þar upp eftir þá var ég þess fullviss að það væri alskýjað upp frá. Það var nú aldeilis ekki, heldur var léttskýjað og sást sums staðar í heiðan himinn. Þegar kvöldaði varð birtan skringileg og Kalli sagði hana skjótta, sem passaði ótrúlega vel við. Skýringuna á veðurfarinu þennan dag sá ég svo af tilviljun á heimasíðu Veðurstofunnar (vedur.is):


Skýjaþekja yfir höfuðborgarsvæðinu
 
 
Terra gervihnattamynd af Suðvesturlandi 9. júlí 2007.
gervihnattamynd - Reykjanesskagi
10.7.2007
Í gær (9. júlí 2007) var skýjað á höfuðborgarsvæðinu, en léttskýjað umhverfis það. Mynd sem tekin var úr gervitunglinu TERRA um kl. 13 sýnir þetta vel.
Ástand þessu líkt er ekki óalgengt að sumarlagi. Vindur er hægur utan af Faxaflóa en mætir mótstöðu við fjallasvæðið austan við borgina. Yfir Faxaflóa eru hitahvörf í nokkur hundruð metra hæð undir hlýrra lofti. Þegar vindurinn kemur inn á land hækka hitahvörfin lítillega, bæði vegna áhlaðanda og vegna þess að yfirborð landsins er hlýrra en sjórinn.
Í þessu tilviki er raki undir hitahvörfunum mátulega mikill til þess að ský myndast þar sem hitahvörfin hækka en ekki úti yfir flóanum þar sem þau liggja neðar.
Svipað ástand má sjá á myndinni norðan til á Snæfellsnesi, en annars er léttskýjað.
Á myndinni sjást einnig flugslóðar sem liggja mun hærra. Sennilega eru þeir flestir frá flugvélum sem fljúga milli Evrópu og vesturstrandar Ameríku yfir Ísland og Grænland.


Kveðja, Ída.