Snæbjörn Erlendsson látinn

 


Snæbjörn Erlendsson svifflugmaður lést hinn 18. nóvember aðeins 57 ára að aldri. Útför hans fór fram 29. nóvember að viðstöddum fjölda svifflugmanna. Svifflugfélag Íslands vottar aðstendum Snæbjörns samúð.

Skúli og Hallgrímur skrifuðu minningargrein um félaga okkar Snæbjörn sem birtist hér að neðan með þeirra leyfi.

 


Snæbjörn Erlendsson

 

Fyrripart sumars, fyrir hart nær aldarfjórðungi, tókum við undirritaðir félagar það heillaskref að hefja nám í svifflugi hjá Svifflugfélagi Íslands á Sandskeiði. Síðsumars fórum við norður í land, nýbakaðir sólóistar og tókum þátt í árlegri lendingakeppni Svifflugfélags Akureyrar á Melgerðismelum. Fyrir norðan kynntumst við mörgum úrvalsmönnum og áttum eftirminnilega helgi. Meðal annara var goðsögning Jón Teygja, afreksmaður í íþróttinni, einn helsti svifflugkennari þeirra norðanmanna og sá sem fór fremstur í flokki þeirra, sem héldu flugflota og öðrum tækjum og tólum við.

Jón Teygja var Melgerðisnafn á Snæbirni Erlendssyni, en norður þar fengu menn sérnöfn sem sjaldnast áttu neitt skylt við skýrnarnöfn hvers og eins. Ekki er að orðlengja það, að þarna tókst vinskapur með okkur, er varð traustari og einlægari eftir því sem árin liðu. Snæbjörn var einstakur maður, laginn smiður, hjálpsamur og umfram allt einhver skemmtilegasti maður, sem við höfum kynnst. Hann var mikill húmoristi og gamansögur af mönnum og málefnum frá Akureyri voru hans sérgrein enda mikill Akureyringur. Ávallt var tilhlökkun í því að vita af samkiptum og nærveru við Snæbjörn í hverju sem var.

Snæbjörn flutti frá Akureyri til Akraness, þar syðra kynntist þar eiginkonu sinni, Sólveigu Rögnvaldsdóttur, eignuðust þau hjón tvo mannvænlega drengi, Erlend og Rögnvald, en fyrir átti Snæbjörn soninn Pétur og Sólveig dótturina Rut. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur, þar sem Snæbjörn fékk vinnu í Vogaskóla sem húsvörður, þar var sannarlega réttur maður á réttum stað.

Vin okkar kveðjum við með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir að hafa kynnst honum og átt hann að vini og samferðamanni.

Ljúfar minningar um góðan dreng munu lifa meðal okkar vina hans og er það trú okkar, að minning hans muni lengi í heiðri höfð bæði á Melgerðismelum, Sandskeiði og annars staðar sem spor hans lágu.

Elsku Sólveig, Erlendur, Rögnvaldur, Pétur, Rut, systkin og aðrir vandamenn og vinir. Okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Skúli Sigurðsson og Hallgrímur Ólafsson