Gull C flug

Það er spennandi og krefjandi að fljúga Gull C vegalengd í hitauppstreymi á Íslandi en til þess þarf að fljúga 300 km um að hámarki 3 hornpunkta.

Gull C flug í hitauppstreymi á Íslandi

Nokkur reynslukorn frá Steinþóri

Það er spennandi og krefjandi að fljúga Gull C vegalengd í hitauppstreymi á Íslandi en til þess þarf að fljúga 300 km um að hámarki 3 hornpunkta. Ég hef reynt þetta nokkrum sinnum í gegnum árin. Í maí árið 2005 tókst mér fyrst að fljúga þessa vegalengd með 320 km flugi um 3 hornpunkta á gömlu Lak-12 svifflugunni minni. Endurtók það í maí 2006 er ég flaug 301 km. Lítið gekk hins vegar árið 2007 og var lengsta flug skv. flugáætlun (plani) það árið aðeins 268 km en ég flaug hins vegar eitt frjálst (óplanað) sem var 501 km í bylgju.

 

Í vor einsetti ég mér að gera betur og föstudaginn 13. júní lagði ég af stað í 370 km flug um 3 hornpunkta þ.e. Sandsskeið – Valafell – Búrfell Grímsnesi - Hrauneyjafoss – Sandskeið. Skilyrði voru ekki sérstaklega góð. Skýjahæð var ekki nema 1300 metrar fyrri hluta dags en aðeins hærri lengst inni í landi. Það er erfitt að fljúga að Valafelli. Það er mjög langt í næsta lendingarstað nema þá Hrauneyjafoss sem er ekki mjög spennandi. Mjó malarbraut og víst að svifflugan yrði rækilega sandblásin ef draga ætti þar upp aftur. Því þarf mikla hæð er flogið er svo langt inn í land og gæta þarf þess að þræða skýjalínur sem auðvitað dregur úr meðalhraðanum í fluginu og seinkar manni sem gerir erfiðara að ljúka fluginu áður en uppstreymið er búið.

Flogið með stefnu að Bláfelli við Hvítavatn

 

Þennan dag myndaðist hitalægð yfir Suðurlandi og hafgoluna skóf inn austan megin upp Suðurlandið og upp að Heklu. Þetta lokaði nánast fyrir mér flugleiðinni að Hrauneyjarfossi á seinni leggnum inn í land. Ég varð að flljúga vestarlega inn í land með stefnu á Bláfell og beygja svo til austurs að Hrauneyjafossi.

Í skýjahæð við valafell á leið að Hrauneyjafossi

Snúið við eftir Hrauneyjafoss á leið til baka

 

Til baka varð ég að fljúga enn lengri leið og var kominn lágt á bakaleið við Laugarvatn er ég sá Danna á LS áttunni í bólu og jók hraðann og tók bólu þar og flaug svo yfir Þingvallarvatn heim til Sandskeiðs. Það er alltaf sérstök tilfinning að komast heim eftir að hafa haldið fullri einbeitingu í 4-5 klst við að komast hratt áfram og halda sér á lofti.

Á leið til lendingar eftir 370 km, vatn lekur úr tönkum

Þreyttur en hress, kominn heim

Útprentun úr StrePla sem sýnir flugferilinn og staðfest flug

 

Eftir þetta flug langaði mig að gera enn betur og skoðaði á korti hvað væri raunhæft að komast langt á því svæði sem við höfum og innan þess tímaramma sem við höfum uppstreymi. Viku seinna á föstudegi lagði ég aftur af stað og nú með enn lengri flugáætlun, 437 km Sandskeið – Valafell – Bláfjöll – Hrauneyjafoss – Sandskeið. Komst snemma af stað og þræddi litla bólstra upp Suðurlandi á milli kl. 12 og 13. Hitauppstreymið var ekki byrjað af krafti og ég þurfi að fljúga krókaleið til að finna mér uppstreymi að Valafelli. En tókst það bærilega og sneri við þar rúmlega kl. 13. Leiðin til baka var hröð og kominn fullur kraftur í loftið. Sneri við í Bláfjöllum og byrjaði 3. legginn. Sá að byrjað var að rigna í fjöllum og mjög tæpt væri að ég gæti lokið fluginu. Flaug lágt neðst í Þjórsárdalnum og barðist þar um stund í 5-600 metra hæð. Náði svo fullri hæð, um 1800 metrum, og flaug í norður yfir Búrfell efst í Þjórsárdalnum og upp að Hrauneyjafossi. Rigning sótti að úr báðum áttum en mér tókst að skjótast milli regnskýjanna og fljúga niður að Árnesi. Klifraði þar í 2200 metra í sterkri bólu og vonaði að það myndi duga mér heim. Við Búrfell í Grímsnesi var ég hins vegar kominn niður í 1300 metra og mótvindur í lofti. Tölvan sagði að mig vantaði 200 metra hæð til að komast heim. Allt uppstreymi var að detta niður enda klukkan orðin rúmlega 17. Ég glimdi við nokkra smáhnoðra sem mynduðust en hélt ekki hæð og var að síga niður. Tölvan sýndi að nú vantaði mig 300 metra til að komast heim.

 

Þetta virtist búið. Ég henti vatninu úr tönkunum til að létta vélina og flaug að Nesjavöllum til að lenda þar. Mér gekk nokkuð vel að halda hæð að Nesjavöllum og var að velta fyrir mér hvort ég hefði hæð til að fljúga fram fyrir Hengil og komast í hangið þar og þaðan heim. En þar sem ég á gamla minningu um slíka tilraun sem endaði með magalendingu á Mosfellsheiði var ég ekki mjög spenntur að taka áhættu á slíku. Ef ég reyndi það yrði ég að hafa hæð til að snúa við til Nesjavalla ef hangið gæfi ekki. En þessa hæð hafði ég ekki.

Flogið of lágt yfir Hengil

Vinir í raun koma vélinni úr óbyggðum

 

Tók þá eftir því hvernig vindurinn blés þvert á hlíð sem er norðaustan við Hengil og ég gat kannað en átt samt hæð til að ná inn á túnið. Gerði það og flaug þar á lágmarkshraða og viti menn. Smá hang var í lofti með örlítilli termik hreyfingu. Mér tókst með nokkrum ferðum að hækka mig um 250 metra og fljúga af öryggi til Sandskeiðs og ljúka þessu flugi sem var það lengsta sem ég hef flogið í hitauppstreymi á Íslandi.

Staðfesting á 437 km flugi

 

Sama dag flaug Baldur glæsilegt flug með 300 km þríhyrningi sem er fyrsti slíkur þríhyrningur í hitauppstreymi hér á landi og markflug fyrir demant.

Næstu verkefni eru að fljúga 200 og 300 km þríhyrninga og 200 km fram og til baka og bæta hraðann í þessum verkefnum.

Vona að sem flestir eigi þess tækifæri að glíma við náttúruöflin með þessum hætti og komast glaðir heim.

 

Kær svifflugkveðja, Steinþór