Afreksstig svifflugmanna

Helstu afreksstig svifflugmanna og þeir áfangar sem við getum náð.

"A" Merki

A-próf fæst eftir fyrsta einflug og veitir nemanda rétt til að fljúga einn í æfingasvæði undir eftirliti kennara.

"B" Merki

B-próf fæst eftir að nemandi hefur flogið 15 einflug og þar af 3 árangursríkar marklendingar í röð. Af þessum 15 flugum þarf eitt að hafa varað í a.m.k. 1/2 klst. frá því að nemandi sleppti dráttartaug. Eftir 15 einflug þarf nemandi síðan að fljúga 3 viðurkennd flug með kennara. B-próf veitir nemanda rétt til að fljúga einflug í nágrenni svifflugvallar.

"C" Merki

C-próf fæst eftir 30 flug og samtals 10 klst. einflug og 5 viðurkennd flug með kennara frá A-prófi. Eitt af þessum 30 flugum þarf að hafa varað í a.m.k. 1 klst. eftir að nemandi sleppti dráttartaug. Með C-prófi telst nemandi hafa lokið verklegum hluta námsefnis til skírteinis svifflugmanns.

FAI viðurkenningar

 

FAI var stofnað 1905 og heitir  Federation Aeronautique Internationale ("FAI"). Svifflugdeildin var stofnuð 1932 og merki þeirra eru alþjóðlega viðurkennt. Þau sýna hversu stórkostlega hluti við getum gert á svifflugum okkar.

 

Silfur "C"

Svifflugmaður getur sótt um silfurmerki FAI til svifflugdeildar Flugmálafélags Íslands ef hann hefur náð eftirfarandi lágmörkum:

 

  • 1.000 metra hæðarhækkun - miðað er við lægstu hæð frá því dráttartaug er sleppt og þar til mestu hæð er náð.

  • 5 klst. langt þolflug - miðað er við þann tíma frá því dráttartaug er sleppt og þar til flugmaður lendir.

  • 50 km langt yfirlandsflug; miðað er við þann stað þar sem dráttartaug er sleppt og þar til svifflugan lendir ef flogið er beint útflug. Einnig er hægt að fljúga 100 km "fram og til bakaflug" (50 km að ákv. punkti og 50 km til baka) eða að flogið er þríhyrningsflug með a.m.k. einum 50 km löngum legg. Ef flugmaðurinn lendir ekki á sama stað og hann hóf flugið, má mismunur á sleppihæð og hæð lendingarstaðar ekki vera meiri en 500 m.

Gull "C"

Svifflugmaður getur sótt um gullmerki FAI til svifflugdeildar Flugmálafélags Íslands ef hann hefur náð eftirfarandi lágmörkum:

 

  • 3.000 metra hæðarhækkun - miðað er við lægstu hæð frá því dráttartaug er sleppt og þar til mestu hæð er náð.

  • 5 klst. langt þolflug; miðað er við þann tíma frá því dráttartaug er sleppt og þar til flugmaður lendir. Óþarfi er að endurtaka þennan hluta ef flugmaður hefur lokið silfur "C"

  • 300 km langt yfirlandsflug - fljúga má beint útflug, fram og til bakaflug, tvo leggi, þríhyrning eða flug um þrjá punkta. Ef flugmaður lendir ekki á sama stað og hann hóf flugið má mismunur á sleppihæð og hæð lendingarstaðar ekki vera meiri en 3.000 m.

Demantar

Demantsviðurkenningar FAI eru þrjár. Ekki er um eiginleg merki að ræða heldur eru demantarnir greiptir í krónu Gull eða Silfur "C" merkisins og þá gjarnan talað um Demant "C"

 

  • 5.000 metra hæðarhækkun - miðað er við lægstu hæð frá því dráttartaug er sleppt og þar til mestu hæð er náð.

  • 500 km yfirlandsflug - sömu reglur gilda um þetta eins og um 300 km yfirlandsflug fyrir Gull "C".

  • 300 km langt markflug skv. fyrirframgerðri flugáætlun - fram og til bakaflug, þríhyrningsflug um tvo hornpunkta eða þríhyrningsflug um þrjá hornpunkta.

Vegalengdarmerki - 1,000 km og þar yfir

FAI veitir sérstök merki fyrir flug sem ná a.m.k. 1,000 km vegalengd. Stig merkisins hækka við hverja 250 km fram yfir 1,000 km. Næsta stig ofan við 1.000 km væri þá 1,250 km merki o.s.frv. Aðeins er hægt að sækja um eitt merki fyrir hvert flug og miðast merkið þá við það stig sem er næst undir þeirri vegalengd sem flogin er.